Um Félag fasteignasala

Skyldur félagsmanna.

Innan Félags fasteignasala eru langflestir löggiltir fasteigna- og skipasalar á Íslandi. Að baki félagsaðild eru mjög ákveðnar skyldur um traust, trúverðugleika og ríkulegt siðferði gagnvart neytendum og geta neytendur sem eiga viðskipti við félagsmenn ávallt leitað aðstoðar FF komi upp vandamál. Á hinn bóginn er ekki vilji til að innan FF séu aðilar sem brotið hafa alvarlega gegn neytendum.

Í stærstu viðskiptum á lífsleiðinni er nauðsynlegt að neytendur geti treyst fasteignasalanum sem það fær ráðgjöf frá í einu og öllu. Þetta er grundvallaratriði og skiptir öllu gagnvart félagsmönnum FF. Félagsmenn FF fylgja í störfum sínum ströngum skyldum laga og eru að auki m.a. bundnir ströngum siðareglum auk góðra venja sem FF hefur úrskurðað að félagsmönnum beri að fylgja til að tryggja hagsmuni neytenda. Þá er félagsmönnum boðið upp á umfangsmikla og metnaðarfulla sí/ endurmenntun til þess að tryggja faglega þekkingu félagsmanna.

Sérstök neytendaþjónusta er veitt á skrifstofu FF. Sé eitthvað óljóst í störfum félagsmanna er símatími við lögmann og löggiltan fasteignasala á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 9:00 – 10:00 en þar geta þeir sem eiga fasteignaviðskipti fyrir milligöngu félagsmanna eða njóta ráðgjafar þeirra óskað aðstoðar sé eitthvað óljóst. Sú þjónusta er gjaldfrjáls neytendum.


Stjórn og skrifstofa.
Stjórn FF er skipuð 5 löggiltum fasteignasölum og tveimur til vara.
Stjórn FF á árinu 2019 – 2020 er þannig skipuð:

Kjartan Hallgeirsson, formaður
Finnbogi Hilmarsson, varaformaður
Hannes Steindórsson, meðstjórnandi
Monika Hjálmtýsdóttir, ritari
Þóra Birgisdóttir, gjaldkeri
Kristín Sigurey Sigurðardóttir, varamaður
Þórey Ólafsdóttir, varamaður


Á skrifstofu FF starfa.
Grétar Jónasson lögmaður og fasteignasali sem er framkvæmdastjóri FF og Lilja Guðmundsdóttir bókari og ritari.


Sagan.
Félag fasteignasala var stofnað þann 5. júlí 1983 af 17 aðilum en tilgangur félagsins var margþættur m.a. að gangast fyrir upplýsingamiðlun til fjölmiðla og almennings um fasteignaviðskipti og vinna að tryggum viðskiptaháttum á sviði fasteignaviðskipta. Saga skipulagðrar fasteignasölu spannar um 120 ár en athafnamaðurinn Einar Benediktsson hefur stundum verið kallaður “fyrsti fasteignasalinn”.

Félagið hefur vaxið jafnt og þétt á liðnum árum og starfssemin aukist stöðugt. Á árinu 2008 stofnaði FF sérstakan fasteignavef fasteignir.is til að mæta mikilli gjaldtöku sem var hafin gagnvart neytendum af MBL sem hafði í krafti einokunarstöðu á fasteignaauglýsingamarkaði á vefnum öll ráð í hendi sér með ákvörðun gjaldtöku. Árangur þess að komið var á samkeppni var neytendum fljótt heilladrjúg enda var skömmu síðar fallið frá umfangsmikilli gjaldtöku gagnvart neytendum sem fasteignasölum vegna þeirrar samkeppni sem komið var á.

FF hefur tekið upp samvinnu með Neytendasamtökunum á síðari árum í mikilvægum málum en brýnt er að á þessu sviði þar sem neytendur eru almennt með alla sína fjármuni undir að hagsmunir neytenda settir í öndvegi og takið sé ákveðið á vandamálum er upp koma það er hagur allra.

Formenn FF frá upphafi:

Magnús Axelsson 1984 til 1986

Þórólfur Halldórsson 1986 til 1993

Jón Guðmundsson 1993 til 1999

Guðrún Árnadóttir 1999 til 2003

Björn Þorri Viktorsson 2003 til 2007

Ingibjörg Þórðardóttir 2007 til 2016
Kjartan Hallgeirsson 2016 til