Félagsmenn


Skyldur félagsmanna


Innan Félags fasteignasala eru langflestir löggiltir fasteigna og -skipasalar á Íslandi. Að baki félagsaðild eru mjög ríkar skyldur er varða traust, trúverðugleika og ríkulegt siðferði gagnvart neytendum og geta neytendur sem eiga viðskipti við félagsmenn ávallt leitað aðstoðar FF komi upp vandamál. Á hinn bóginn er ekki vilji að hafa innan raða Félags fasteignasala aðila sem hafa brotið alvarlega gegn neytendum.

Í stærstu viðskiptum á lífsleiðinni er nauðsynlegt að neytendur geti treyst fasteignasalanum í einu og öllu en í gegnum allt ferlið hvíla ríkar skyldur persónulega á hverjum félagsmanni.  Þetta er grundvallaratriði og skiptir öllu gagnvart félagsmönnum FF en þeim er skylt að fylgja í störfum sínum ströngum skyldum laga og eru að auki m.a. bundnir ströngum siðareglum auk góðra venja sem FF hefur úrskurðað að félagsmönnum beri að fylgja til að tryggja hagsmuni neytenda.  Félagsmönnum Félags fasteignasala er boðið gjaldfrjálst upp á umfangsmikla og metnaðarfulla sí/ endurmenntun til þess að tryggja að félagsmenn haldi við og efli stöðugt faglega þekkingu sína í þágu fólks er á í fasteignaviðskiptum.

Sérstök neytendaþjónusta er veitt á skrifstofu FF. Sé eitthvað óljóst í störfum félagsmanna er símatími við lögmann og löggiltan fasteignasala á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 9:00 – 10:00 en þar geta þeir sem eiga fasteignaviðskipti fyrir milligöngu félagsmanna eða njóta ráðgjafar þeirra óskað aðstoðar sé eitthvað óljóst. Sú þjónusta er gjaldfrjáls neytendum.

Siðareglur félagsmanna

Grundvallarreglur siðareglna sem félagsmönnum Félags fasteignasala er skylt að fylgja byggja á heilindum, hlutlægni, faglegri hæfni og varkárni, trúnaði og faglegri hegðun.

Hér getur þú nálgast siðareglur er félagsmönnum FF ber að fylgja við störf.

Hafir þú spurningar um þetta og hvort þeim sé fylgt í viðskiptum þínum getur þú leitað skýringa í símatíma hjá FF.